Frelsi og sjálfsábyrgð íslenskrar þjóðar

Eftir Arnar Þór Jónsson

Sem sjálf­stæð þjóð stönd­um við nú veik­um fót­um. Ef svo held­ur fram sem horf­ir er alls ekki víst að frjáls­lynd lýðræðis­hefð haldi hér velli.

Saga mann­kyns sýn­ir að frelsið er dýr­mætt og lýðræðið viðkvæmt. Dæm­in sanna einnig að ótemprað vald er ógn við hvort tveggja. Stjórn­ar­skrá okk­ar geym­ir mik­il­væg ákvæði um temprun rík­is­valds­ins. En hvaða varn­ir hef­ur ís­lensk þjóð gagn­vart er­lendu valdi þegar það seil­ist til áhrifa hér­lend­is og kall­ar eft­ir yf­ir­ráðum sem stjórn­ar­skrá­in ætl­ar ís­lensk­um yf­ir­völd­um ein­um? Á síðustu árum hafa ytri og innri mál lýðveld­is­ins þró­ast með þeim hætti að ekki verður leng­ur und­an litið. Dynj­andi óveðurs­ský­in ættu nú að vera greini­leg öll­um þeim sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra.

Bönd lýðræðis­ins trosna

Tengsl­arofið milli al­menn­ings og vald­hafa birt­ist í ýms­um mynd­um og skulu hér nefnd nokk­ur dæmi:

1. ESB hef­ur í fram­kvæmd tekið yfir hluta af valdsviði Alþing­is með þeim hætti að ara­grúi reglna streym­ir nú í gegn­um þjóðþing Íslend­inga á ári hverju án efn­is­legr­ar aðkomu, end­ur­skoðunar eða breyt­inga af hálfu ís­lenskra þing­manna. Evr­ópu­regl­ur þess­ar hljóta laga­gildi hér á landi án þess að fá hér lög­form­lega rétta meðferð í sam­ræmi við stjórn­ar­skrá og þingsköp. Í stað þriggja umræðna á Alþingi hljóta regl­ur þess­ar af­greiðslu sem þings­álykt­an­ir. Þetta er vafa­laust þægi­legra fyr­ir ESB, en hvað með ís­lenska þjóðar­hags­muni? Má una við það að þings­álykt­un sé veitt sama gildi og lög­um sem hlotið hafa þing­lega og stjórn­skipu­lega rétta meðferð? Er ásætt­an­legt fyr­ir þjóð sem kall­ast vill sjálf­stæð að við get­um breytt öll­um lög­um sem eru í gildi hér­lend­is, nema þeim sem eiga stoð í EES-samn­ingn­um, vegna þess að við höf­um eng­an aðgang að því valdi sem set­ur regl­ur á grund­velli EES?

2. Með inn­leiðing­ar­ferl­inu hef­ur embætti for­seta lýðveld­is­ins verið geng­is­fellt, því fram­an­greind „skemmri skírn“ rýr­ir ekki aðeins stjórn­skipu­lega stöðu Alþing­is held­ur ger­ir synj­un­ar­vald for­set­ans óvirkt. Báðar þess­ar staðreynd­ir veikja þá lýðræðis­vörn sem Alþingi og for­seta er ætlað að veita al­menn­um borg­ur­um hér á landi sam­kvæmt stjórn­ar­skrá.

3. Eitt mik­il­væg­asta atriði stjórn­skipu­legr­ar vald­temprun­ar og lýðræðis­vernd­ar gagn­vart meiri­hluta­valdi er heim­ild dóm­stóla til dæma um hvort lög brjóti gegn stjórn­ar­skrá. Nú er svo komið að ís­lensk­ir dóm­stól­ar fara í reynd og í æ rík­ari mæli ekki með þetta eft­ir­lits­hlut­verk hvað viðvík­ur hinum ört stækk­andi hluta lag­anna sem eiga upp­runa sinn hjá ESB. Í fram­kvæmd er æðsta úr­sk­urðar­vald um Evr­ópu­rétt hjá dóm­stól ESB, sem legg­ur EFTA-dóm­stóln­um lín­urn­ar og þangað leita ís­lensk­ir dóm­stól­ar ráða um túlk­un Evr­ópu­reglna, þ.m.t. Hæstirétt­ur. Í því sam­hengi öllu hafa regl­ur ESB um fjór­frelsið tekið sæti ein­hvers kon­ar „yf­ir­stjórn­ar­skrár“, sem allt annað verður að lúta. Þessu til viðbót­ar hef­ur Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu tekið sér vald, sem þeim dóm­stól var aldrei ætlað, til íhlut­un­ar um innri mál­efni ís­lenska lýðveld­is­ins.

4. Regl­urn­ar í þriðja orkupakka ESB voru þess eðlis að þær hefðu með réttu átt að fara í gegn­um þrjár umræður á Alþingi og fá að því loknu samþykki for­seta lýðveld­is­ins. Gagn­rýn­is­vert er að þetta hafi ekki verið gert. Sú staðreynd að Hæstirétt­ur Nor­egs hef­ur nú ákv­arðað að taka skuli til efn­is­meðferðar máls­höfðun „Nej til EU“ vegna inn­leiðing­ar þriðja orkupakk­ans í Nor­egi er enn eitt viðvör­un­ar­ljósið. Verði niðurstaða norskra dóm­stóla sú að regl­ur þriðja orkupakk­ans hafi verið svo viður­hluta­mikl­ar að auk­inn meiri­hluta hafi þurft á norska stórþing­inu, þá mun jafn­framt op­in­ber­ast að meðferð Alþing­is á mál­inu hafi verið til stór­fellds vansa, svo að jafna mætti því við trúnaðarbrest gagn­vart ís­lenskri þjóð. Hér er ekki lítið í húfi.

5. Á sama tíma hafa aðrir ör­ygg­is­heml­ar lýðræðis og borg­ara­legs frels­is slaknað á tím­um Covid-19: Aðgerðir stjórn­valda vegna kór­óna­veirunn­ar hafa stór­lega hamlað öllu fé­lags­starfi og þar með veikt borg­ara­legt aðhald gagn­vart miðstýrðu valdi. Aðgerðir stjórn­valda hafa leitt til efna­hags­legs tjóns, at­vinnu­leys­is, ein­semd­ar, kvíða, þung­lynd­is, fé­lags­legs rofs o.fl. sem allt mun hafa langvar­andi fjár­hags­leg­ar, fé­lags­leg­ar og heilsu­fars­leg­ar af­leiðing­ar. Í stað vald­dreif­ing­ar og einkafram­taks hef­ur öll þró­un­in verið í átt til miðstýr­ing­ar og rík­is­rekstr­ar. Niðurstaðan af öllu þessu er sú að lam­andi hönd hef­ur verið lögð á lýðræðis­lega virkni borg­ar­anna. Sag­an sýn­ir að þegar frjáls fé­laga­sam­tök veikj­ast verður auðveld­ara fyr­ir full­trúa rík­is­valds (og þeirra sem tala sem mál­svar­ar siðferðilegs meiri­hluta) að beita borg­ar­ana kúg­un og of­ríki með til­heyr­andi skerðingu frels­is og rétt­inda.

6. Í öllu þessu sam­hengi eru ótald­ar þær hætt­ur sem þjóðarör­yggi Íslend­inga staf­ar af skipu­lagðri glæp­a­starf­semi, er­lendu hervaldi, sam­krulli valds og fjár­magns, mis­notk­un fjöl­miðla, njósn­a­starf­semi, veiku fjar­skipta­ör­yggi o.fl.

7. Hvort sem veik staða lýðveld­is­ins nú skýrist af van­meta­kennd eða fyr­ir­hyggju­leysi má öll­um les­end­um þess­ar­ar grein­ar vera ljóst að við svo búið má ekki leng­ur standa.

Höf­um við metnað til að stýra eig­in veg­ferð?

Er­lend­ar laga­regl­ur eru sam­kvæmt fram­an­sögðu inn­leidd­ar hér í stór­um stíl með lít­illi eða engri þátt­töku kjör­inna full­trúa ís­lensku þjóðar­inn­ar og þar með án þess að Íslend­ing­um hafi gef­ist viðun­andi tæki­færi til að hafa áhrif á efni þeirra reglna. Á manna­máli þýðir þetta að ís­lenskt lög­gjaf­ar­vald hef­ur að miklu leyti verið yf­ir­tekið af er­lendu valdi. Þar við bæt­ist að æðsta túlk­un­ar­vald um lög­mæti þess­ara reglna hef­ur í veiga­mikl­um efn­um verið eft­ir­látið er­lend­um emb­ætt­is­mönn­um. Með þessu hef­ur end­ur­skoðunar- og aðhalds­hlut­verk Alþing­is og ís­lenskra dóm­stóla verið veikt eða gert óvirkt. Þar með hafa lýðræðis­leg­ar und­ir­stöður stór­lega skaðast. Í fram­kvæmd birt­ist þetta í skerðingu þeirr­ar rétt­ar­vernd­ar sem stjórn­ar­skrá­in ætl­ar al­menn­um borg­ur­um. Neit­un­ar­vald for­seta hef­ur, jafn­vel í stærstu mál­um, verið gert óvirkt. Emb­ætt­is­menn í er­lend­um borg­um, sem enga ábyrgð bera gagn­vart Íslend­ing­um, taka í sí­vax­andi mæli af­drifa­rík­ar ákv­arðanir um ís­lensk inn­an­rík­is­mál.

Allt fram­an­greint hef­ur grafið und­an stoðum lýðveld­is­ins Íslands. Sem sjálf­stæð þjóð stönd­um við nú veik­um fót­um. Ef svo held­ur fram sem horf­ir er alls ekki víst að frjáls­lynd lýðræðis­hefð haldi hér velli.

Í kvæði sínu „Alþing hið nýja“ kallaði Jón­as Hall­gríms­son eft­ir því að Íslend­ing­ar, sem lengi hefðu „dvalið draumþing­um á“ vöknuðu til vinnu og metnaðar. Slík hvatn­ing á fullt er­indi nú, ekki síður en þá.

Höf­und­ur er héraðsdóm­ari. Birtist í Morgunblaðinu 7.4.2021

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.