Landstjórn sem ekki gætti hagsmuna Íslands

Ríkisstjórn og Alþingi sem skila brátt sínu umboði hafa reynst slök við hagsmunagæslu og ekki staðið með Íslandi í mikilvægum málum. Tískustjórnmálabylgjur að utan hafa ráðið miklu um landstjórnina, oft andstæðar hagsmunum landsins. Fábreytt atvinnulíf og þar með atvinnuleysi stórra hópa er orðið vandamál, mikilvæg uppbygging hefur verið hæg.

-Orkukerfið hefur ESB fengið að leggja meir og meir undir sína stjórn sem þýðir að samkeppnishæfni Íslands minnkar og orkuauðlindin færist á forræði útlendinga.

-Orkuauðlindum landsins hefur verið of lítill gaumur gefinn, aðeins tískuhugmyndir um „græna“ orkuframleiðslu á dagskrá en mikil jarðhitasvæði, djúpvarmi, vatnsföll, olíu-og gassvæði hafa setið á hakanum.

-Vindmyllur, með tilheyrandi umhverfisspjöllum, eiga að knýja verksmiðjur fyrir „græna orkugjafa“ handa ESB, um er að ræða framleiðslu hættulegra efna sem gefa ekki orku en miðla hluta af orkunni sem fer í að framleiða þau.

-Loftslagshlýnun er eytt fúlgum í að stöðva meðan snjóar í byggðum Íslands um mitt sumar, ef hlýnaði væri það ávinningur fyrir landið. Ríkisstjórnin lætur Ísland taka þátt í að útrýma eldsneyti vegna koltvísýrings enda þótt Íslendingar eigi heimsmet í koltvísýringslausri orkuframleiðslu.

-Umhverfistrúfélög og erindrekar þeirra eru settir, framhjá lýðræði, í að stjórna landinu, þeir reka afturhaldsstefnu sem er í tísku og reyna koma í veg fyrir að landsmenn nýti landið og auðlindir þess en standa fyrir skemmdum á nytjalandi með „vistheimt“ eða álíka fálmi.

-Landbúnaðurinn hefur ekki verið varinn fyrir vaxandi ásælni ESB/EES í íslenska matvörumarkaðinn. Þróun aðfangakerfis landbúnaðarins, s.s. jarðvarma, raforku, koltvísýrings, hefur lítil verið.

-Sorphirða samkvæmt regluverki ESB/EES er komin í þvílíkt öngþveiti að milljarða eyðsla hleðst á útsvarsgreiðendur að óþörfu.

-Innflutningur hælisleitanda frá fjarlægum þróunarlöndum, með atbeina ESB/EES/Schengen og SÞ, flytur inn vandamál, hættur og kostnað sem landstjórnin hefur ekki getað varið landsmenn fyrir.

-Reglufargani ESB/EES hafa stjórnvöld ekki uppi neinar áætlanir um að aflétta, það stendur í vegi fyrir nýsköpun og þróun atvinnulífs og uppbyggingu í byggðum landsins.

-Ósjálfstæði í utnaríkismálum hefur leitt til að verslun við alþjóðamarkaðinn, sérstaklega vöruinnkaup, er undir stjórn og höftum ESB. Ísland hefur dregist að óþörfu inn í refsiaðgerðir ESB og NATO gegn mikilvægum viðkiptaþjóðum.

-Aukaatriði hafa aftur á móti verið mikið á dagskrá hjá landstjórninni, sem lítið bæta hag almennings en eru tímafrek og dýr, dæmi er eltingaleikur við gagnslitlar yfirlýsingar ESB, sameinuðu þjóðanna, OECD eða einhverra samtaka, eða oft óþörf lög og reglur til dæmis um aukin réttindi minnihluta- og sérhópa.

Hér á heimasíðunni er að finna nánari umfjöllun um þessi mál.

This entry was posted in EES, Landbúnaður, Loftslag, Orka, Umhverfismál, Uppbygging, Utanríkismál, Verslun. Bookmark the permalink.