Þetta er orðið nóg

Tilskipanirnar frá Evrópusambandinu hrannast upp. Það er þegar komið nóg.

Ísland komst undir erlent tilskipanavald fyri 30 árum, 1. janúar 1994. með EES-samningnum. Stuðningsmenn samningsins sögðu að hann væri nokkurs konar fríverslunar- og samstarfssamningur. Hvorutveggja hefur reynst rangt. Reynsla 3 áratuga hefur sýnt að samningurinn hafði lítið um fríverslun fram yfir fríverslunarsamninginn sem var fyrir hendi, frá 1972. „Samstarfið“ hefur að mestu þýtt upptöku laga og reglugerða ESB en margir héldu að Ísland gæti hafnað tilskipunum að vild. Það hefur reynst tálsýn.

Stjórnvöld Íslands hafa ekki látið reyna á það, þvert á móti eru þau nú að undirbúa sérstök lög til að árétta að þær séu æðri landslögum. Í framkvæmd ganga þær í gildi hér þegar þær koma stimplaðar frá Sameiginlegu EES nefndinni í Brussel þó sú nefnd sé ekki lýðræðislega kjörinn valdastofnun.

ESB hefur stöðugt tekið til sín meiri völd og íslenskar stjórnvaldsstofnanir hafa verið teknar undir beina stjórn ESB. Samkeppniseftirlitið, Persónuvernd, Fjármálaeftirlitið og nú síðast raforkueftirlit (sem verður sett á fót með nýrri „loftslagsstofnun“), eru í raun erindrekar og hluti af stjórnkerfi ESB, framhjá íslenskum stjórnvöldum. Þær hafa fengið rúmar valdheimildir, m.a. til aðfara að Íslendingum sem fullvalda ríki veita ekki erlendu stjórnvaldi að jafnaði.

Samkeppniseftirlitið hefur staðið í vegi fyrir hagræðingu á fyrirtækjamarkaði. Persónuvernd og ESB-löggjöfin veldur miklum kostnaði og fyrirhöfn og litlum ávinningi. Regluverkið um bankana hefur gert þá illfæra um að uppfylla þarfir almennings sem bitnar illa á ungu fólki sem á í vaxandi erfiðleikum með að fjármagna húsnæðiskaup. Tilskipanir ESB hafa þegar stefnt orkukerfi, landbúnaði og iðnaðaruppbyggingu í öngstræti.

UM þriðjungur af málum sem ríkisstjórn hefur sent Alþingi til samþykktar síðustu árin hafa verið valdboð frá ESB, sum sem innifela margar tilskipanir eða „gerðir“. Málin hafa jafnan verið samþykkt af Alþingi án efnislegra breytinga, þingmenn vita að þeir fá engu að ráða og eru hættir að reyna að berjast. Þetta er ein alvarlegasta afleiðingin af EES: Íslenska stjórnkerfið hefur lamast. Mörgum málaflokkum er stjórnað að miklu leyti samkvæmt regluverki ESB sem hentar oft illa hérlendis eins og menn þekkja. Umhverfismál eru dæmi, nýlegt „hringrásarhagkerfi“ er dæmi um dýrt ESB-kerfi sem er byggt á rökum sem ekki eiga við hér en spillir íslenskri hreinlætismenningu. Mengunarreglugerðir og umhvefismatsreglur frá ESB eru sömuleiðis oft byggðar á rökum sem eru ógild hér og hafa staðið i vegi fyrir uppbyggingu.

Loftslagsmál“ ESB (afnám eldsneytis og húsdýrahalds) eru afsökun fyrir stöðugt meira íþyngjandi og óraunsæjum tilskipunum frá Brussel. Kostnaður Íslands við að fjármagna „losunarheimildir“ er farinn að skipta milljörðum á ári og vex hratt. Flug- og skipasamgöngur við umheiminn eiga yfir höfði sér nýja ofurskatta og óheyrilega kostnaðarsöm kaup á losunarheimildum sem munu valda hruni ferðaiðnaðarins og stórhækkun vöruverðs. Okkar stjórnvöld lofuðu 2015 í París að draga úr eldsneytisnotkun án þess að hafa gert verkfræðilega rannsókn á hvað er mögulegt. Sektir vegna vanefnda á óraunhæfu loforðunum geta farið að hlaupa upp í stjarnfræðilegar upphæðir. Loftslagsmál ESB eru á leið með að valda hér samskonar fátækt og hrörnun og í Evrópusambandinu. Af aðalatvinnuvegunum er það aðeins hinn öflugi sjávarútvegur sem að talsverðu leyti er ennþá óhultur fyrir EES. Mannorð og ferill Íslands í orkumálum eru þannig að engin þörf var að afhenda ESB málaflokkinn „loftslagsmál“ þó stjórnvöld okkar hafi lofað einhverju á alheimssamkomu í París. Málaflokkurinn er betur kominn undir íslenskum stjórnvöldum.

Regluverkið og leyfisveitingaferlið um framkvæmdir, þar á meðal um orkumál og virkjanir, að mestu ættað frá ESB, er orðið svo þungt að framkvæmdir hafa að mestu stöðvast. Afleiðingin er orkuskortur sem ekki er hægt að komast út úr nema að ganga framhjá EES-regluverkinu með einhvers konar sérlögum, neyðarlögum eða úrsögn úr EES. Ef öll ákvæði regluverks EES verða sett í verkið verður orka hérlendis mjög dýr eins og í ESB.

ESB skiptir sér af utanríkismálum Íslands og tókst 2014 í krafti EES og með hjálp NATO að draga Ísland með í refsiaðgerðir gegn einu stærsta viðskiptalandinu. Ísland fór þar með að skipta sér af borgarastyrjöld og í framhaldinu að styðja hernaðarþátttöku ESB og NATO gegn einu stærsta vopna- og kjarnorkuveldi Jarðar. Allir geta dæmt um hversu skynsamleg slík þátttaka er fyrir fámennt herlaust land sem hefur mannorð að verja sem miðlari friðar milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Viðskiptum Íslands á alþjóðavettvangi eru settar skorður með regluverki ESB sem stendur vexti og viðgangi atvinnufyrirtækja fyrir þrifum á sumum sviðum og eykur kostnað á almenning. ESB gefur út margs konar lög og reglur til að útiloka fyrirtæki utan ESB frá sínum markaði.

Skaðleg EES-valdboð frá ESB hrannast upp. Það er þegar komið nóg og í raun meir en nóg!

Greinin er eftir Friðrik Danielsson og birtist fyrst í Morgunblaðinu 16.12.2023

This entry was posted in EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.