Rússagrýlan vakin upp frá dauðum

Upplausnaröflunum og erindrekum ESB, NATO og Bandaríkjanna tókst að flæma löglega stjórn Úkraínu frá völdum (febrúar 2014).

Annan jóladag 1991 gátu menn gengið sælir til hvílu: Rússagrýlan var dauð, Ráðstjórnarríkin leyst upp. Sumir héldu að eilífur friður væri hafinn.

Lendur Rússa aðlaðandi

Lendur Rússa eru stórlega víðar og gjöfular. Herveldi hafa í aldir rennt hýru auga þangað og jafnvel reynt að leggja þær undir sig. Þeim sem þekkja söguna kemur ekki á óvart að ný tilraun sé gerð, gamalgróna landvinningaþrá er erfitt að lækna. Vestasti hlutinn, Úkraína, liggur vel við og íbúar hafa oft verið veikir fyrir gylliboðum vestan að og stríðsherrunum meira að segja stundum verið vel tekið þegar þeir hafa mætt gráir fyrir járnum. Eftir 1991 hófu Austur-Evrópuríki að hópast í faðm ESB. Rússar létu það afskiptalaust en þegar gömlu stríðsþjóðirnar fóru að bera víurnar í lendur Kíev Rússa, Úkraínu, þar sem upprunastaður og menningarvagga Rússa er, tóku að renna tvær grímur á rússneska björninn.

Undirróður og óeirðir

Það þýðir lítið að fara með hernaði á hendur Rússum (þeir hafa hrundið öllum árásum). Tæki nútímans við að leggja undir sig Austur-Evrópulönd eru gylliboð, fjárburður (mútur), blekkingar, hótanir og útilokanir. ESB, NATO og Bandaríkin og þarlendir aðilar hafa eftir fall Ráðstjórnarríkjanna eytt miklu fé í að ná Austur-Evrópu undir sig. Röðin er nú komin að stærsta bitanum: Úkraínu. Tilganguninn er að afnema sjálfstæði landsins, innlima það í ESB og NATO og opna það fyrir rupli (hrægamma, banka og „fjárfesta“) og kúgun (Brussel) eins og önnur jaðarlönd ESB. Og að koma vestrænum vopnasölum í gróðaviðskipti. Vesturhluti Úkraínu er orðinn þéttsetinn „frjálsum félagasamtökum“ (les undirróðursverktökum með áburðarfé til reiðu).

Lögleg ríkisstjórn Úkraínu flæmd frá völdum

Þegar ljóst varð að ríkisstjórn Úkraínu hafnaði aðild að ESB (nóvember 2013) jókst enn fjárausturinn í undirróðurinn. Þegar götubardagarnir hleyptu úkraínsku samfélagi í bál og brand (fyrri hluta árs 2014) höfðu Bandaríkin ein „fjárfest“ 5 milljarða dala í „framtíð“ landsins, auk allra hinna „fjárfestanna“ og félagasamtakanna. Heimildir eru um að óeirðaseggjunum, öfgamönnum, glæpamönnum og illa upplýstum ungmennum hafi verið borgað allt að 300 grivnur til að taka þátt í götuóeirðum í Kíev. Upplausnaröflunum og erindrekum ESB, NATO og Bandaríkjanna tókst að flæma löglega stjórn Úkraínu frá völdum og koma sínum leppum í valdasætin. Þeir skrifuðu síðan undir „samstarfssamning“ við ESB.

Stríðsæsingar

Málið er orðið svo alvarlegt að núverandi Bandaríkjaforseti hefur uppi stríðstón gegn Rússum með kanslara Þýskalands sér við hlið á slóðum forvera hennar í bæversku Ölpunum. Þar voru einu sinni lögð á ráðin um innlimun Úkraínu. Þá þurftu Bandaríkin að fórna nærri hálfri milljón ungra manna. Rússar fórnuðu 10 milljónum auk þeirra milljóna almennra borgara sem lífið var murkað úr. Bandaríkin, sem eru guðfaðir ESB, virðast enn ekki hafa áttað sig á að ESB, sem átti að koma í veg fyrir frekari ófrið stríðsþjóðanna með því að binda þær saman, er orðið að varasömu landvinningasambandi.

ESB reynir að útiloka Rússa

ESB með aðstoð Bandaríkjanna og NATO hefur sett viðskiptabönn á Rússland til að reyna fá Rússa til að láta ESB innlima Úkraínu. Rússum í mikilvægum stöðum var bannað að koma til ESB. Meira að segja hefur Rússland verið útilokað frá fundum Evrópuráðsins og hindrað í að taka þátt í starfi ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu). Hvorug þessara stofnana er þó hluti af ESB sem samt heldur þeim í fjötrum. Fulltrúar Íslands hafa hreyft mótmælum án árangurs. Langstærsta og hernaðarlega mikilvægasta þjóð Evrópu á ekki lengur rödd í friðar- og samvinnustofnunum Evrópulanda!

Norðurlönd dragast inn

Saklausir Norðurlandabúar hafa álpast til að taka þátt í að endurlífga Rúsagrýluna. Rússar hafa þó ekki farið með hernaði að fyrra bragði svo menn muni til að leggja undir sig Danmörku, Noreg eða Svíþjóð, hræðsla þeirra við Rússa er brosleg og setur Norðurlönd í ljós áhrifagjarnra múgæsingamanna. Þeir hafa tekið þátt í viðskiptabönnum og útilokunartilraunum ESB gegn Rússum en Norðurlönd hafa löngum verið þæg nýlenduveldunum eins og Íslendingar þekkja frá landhelgisdeilunum og hryðjuverkalögunum. Í baráttu Íslendinga við þau hafa Rússar ætíð staðið með Íslendingum. Það væri því órökrétt og lítilmannlegt ef Íslendingar færu að taka þátt í stríðsæsingi þeirra gegn Rússlandi.

Rússar hafa ekki gert hernaðarárás á Vesturlönd

Rússar hafa heldur ekki rekið árásarstríð að fyrra bragði gegn Vestur-Evrópu. Rússagrýlan hefur alla tíð verið söguvera: Hún er fundin upp af þeim sem vilja komast yfir auð Rússa, haldið lifandi af áróðursmönnum sem þeim þjóna, hergagnasölum og málglöðum vankunnandi æsingamönnum sem hafa aðgang að fjölmiðlum.

Hlutverk Rússa í landvörnum Vesturlandabúa hefur aftur á móti í aldanna rás verið að kveða niður óaldarflokka og bjarga Evrópu og heimsbyggðinni frá drápsóðum stríðsherrum þeirra (Mongólum 1223, Frökkum 1812, Þjóðverjum 1945).

Friðrik Daníelsson  Greinin er úr Morgunblaðinu 24.júlí,2015

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1561526/?item_num=64&searchid=26f96a52b875fc22a4fb159328ee6e4676ccdef1

 

This entry was posted in EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.