Rannsóknir bannaðar

Þjóðir sem ekki nýta sínar auðlindir verða fyrr eða síðar leiksoppur þeirra sem vilja nýta þær. Nú lítur út fyrir að bábiljur sértrúarsöfnuða séu farnar að stjórna landinu. Ríkisstjórnin ætlar að láta Alþingi samþykkja bann við olíu- og gasleit í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt Orkustefnu til ársins 2050 sem er að mestu slagorðasafn ESB um „loftslagsmál“ en tekur ekki skipulega á orkumálum Íslands. Þegar er komin orkukreppa í ESB vegna rangrar orkustefnu, hún er nú tekin að breiðast út hingað með EES.

Áform um lagasetningu“. Á samráðsgátt stjórnvalda er að finna lýsingu og ástæður lagasetningarinnar sem banna á leit að olíu- og gaslindum. Þar eru sett fram draumórakennd og barnslega fávís markmið sem eiga að uppfyllast 15 árum eftir að núverandi ríkisstjórn og Alþingi eru farin frá! Í stjórnarsáttmála – er sett fram það markmið að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Ríkisstjórnin muni ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands-“.

Bann. -Er rétt að rammalöggjöf um leyfisveitingu til leitar og vinnslu kolvetnis verði felld brott og að lögum nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins verði breytt þannig að þar sé sérstaklega mælt fyrir um bann við olíuleit og vinnslu í efnahagslögsögunni“. https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3135

Hofmóður. Ríkisstjórn, sem á eftir að sitja í rúmlega 3 ár, ætlar sér að banna rannsóknir á framtíðar auðlindum íslenskrar þjóðar! Sjálfbirgingshátturinn er mikill en fagmennskan er ekki meri en svo að stór hluti fullyrðinganna sem koma fram eru úr lausu lofti gripnar. Meira að segja er íslenskukunnáttan takmörkuð, textinn ógreinilegur og röng orð notuð. „-Leit og vinnsla kolvetnis-“ merkir leit og vinnsla sykurs eða mjöls! Jarðolía og jarðgas eru vetniskolefni.

Olía og gas eru auðlind. Olíu- og gassvæði gætu orðið auðsuppspretta framtíðar Íslendinga. Nú þegar hafa verið gerðar rannsóknir á svæðum sem Ísland á tilkall til, á Drekasvæði norðaustur af landinu og í minna mæli á Hatton Rockall suðaustur af landinu. Rannsóknagögnin og niðurstöðurnar eru varðveittar í landinu og eru í eigu þjóðarinnar, mjög verðmæt gögn um kostnaðarsamar rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar. https://orkustofnun.is/orkustofnun/kortasjar/landgrunnsvefsja/

Sjálfbær orkuframtíð“ er yfirskrift á orkustefnu núverandi ríkisstjórnar. Skjalið er upptalning af draumórum ESB um „orkuskipti“ og „kolefnishlutleysi“. Fullyrðingar eru um ýmsa eldsneytiskosti og orkuöflun sem eru greinilega frá aðilum sem ekki hafa þekkingu á því sem fjallað er um en reka áróður fyrir stefnu stjórnvalda án tillits til vísinda- eða tæknilögmála. Í Orkustefnuna vantar hvernig best er að halda á hagsmunum Íslendinga, orkuöryggi, atvinnusköpun, lífskjörum.

Nútímamenn í skemmdarverkum. Reyni nútíma Íslendingar að koma í veg fyrir rannsóknir á auðlindum landsins er verið að leggja stein í götu efnahagsþróunar íslenskrar þjóðar. Landsmenn gætu þurft á auðlindunum að halda, þær gætu orðið forsenda góðs efnahags. Að banna rannsóknir á mögulegum svæðum verðmætra vetniskolefna er skemmdarverk, höft á frelsi og sókn landsmanna til betra lífs. Ríkisstjórn sem reynir slíkt á að fara frá. https://www.frjalstland.is/2021/03/21/island-er-nu-an-eigin- orkustefnu/

This entry was posted in EES, Orka, Uppbygging. Bookmark the permalink.