Ísland smitað af orkukreppu ESB

Afskipti ESB af stjórn orkumála og umhverfismála landsins eru nú að koma fram i orkuskorti. Fyrirtæki og sveitarfélög landsins fá ekki lengur þá raforku sem þau þurfa. Ástæður orkuskortsins er vöntun á orkuverum sem EES-tilskipanir um orkumál og umhverfismál auk rammaáætlunar hafa tafið. Umhverfisregluverkið, að mestu frá ESB, er orðið allt of flókið og tefjandi. Sundurlimun orkufyrirtækjanna hefur veikt þau til framkvæmda.

Minna vatnsrennsli úr jöklunum er kennt um sem yfirvöld orkumála hefðu átt að vera búin að taka inn í myndina og gera vandaðri spár og viðbragðsáætlanir um. Það er til vitneskja um jökulbráðnun, árrennsli og veðurfar aftur í tímann sem nýtist við framtíðarspá um vatnsrennsli. Virkjanakerfið þarf að hafa aukagetu til þess að taka inn þegar vatnsleysi eða bilanir skella á.

Bræðslur og varmaveitur sveitarfélaganna verða nú að hlíta rafmagnskömmtun. Fleiri hafa verið varaðir við orkuskömmtun. Mitt í góðri loðnuvertíð fá bræðslurnar ekki nægilegt rafmagn. Á Seyðisfirði og Ísafirði er fyrirsjáanlegur orkuskortur hjá varmaveitunum. En bæði sveitarfélögin og bræðslurnar hafa haft skynsemi til að halda olíukötlunum viðbúnum raforkuskorti. Það bjargar nú málunum, olían er hagkvæmur orkugjafi og engin frágangssök að nota hana þó viss aukakostnaður geti komið á notendur þegar ódýr raforka almannaveitna bilar. Umhverfisáhrifin af notkun olíunnar, sem sumir hafa áhyggjur af, verða engin séu brennararnir rétt stilltir.

Afskipti ESB af orkukerfinu og umhverfismálum hér gegnum EES er ein helsta ástæðan fyrir hvernig komið er. Orkukreppa ESB, sem hófst með óraunsæum stefnumálum um „græna“ orku og “kolefnishlutleysi”, hefur orsakað dýpkandi orkukreppu í ESB sem nú hefur smitast til Íslands með EES-tilskipunum og hjálp óstjórnar og undirlægju okkar eigin stjórnvalda. https://www.frjalstland.is/2019/05/12/dypkandi-orkukreppa-i-esb/

Orkuskiptin, Farið er að nota raforku í notkunarsvið þar sem rafmagn hentar illa, til dæmis rafbíla og jafnvel ferjur, sem hagkvæmara er að reka með jarðefnaeldsneyti. Mikil raforka fer í rekstur sem er lítið atvinnugefandi. Ef ætti að setja rafhlöður eða „rafeldsneyti“ allsstaðar þar sem jarðefnaeldsneyti er notað nú yrði raforkuþörfin langt fram yfir það sem virkjanir landsins, í nútíð og framtíð, ráða við.

-orkuskipti eru tómt mál að tala um fyrr en búið er að tryggja farsæla lausn þessara mála-“ (Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, Mbl 22.1.2022)

This entry was posted in EES, Orka, Umhverfismál, Uppbygging. Bookmark the permalink.