Orkuskiptin eru draumórar

Til að ljúka orkuskiptunum þyrfti 200% meiri raforku en nú er framleidd hér.

Landsvirkjun hefur sagt að afla þurfi 50% meiri raforku (10 TWt/ári) ef ljúka eigi orkuskiptum í samgöngum á landi, sjó og flugi: -Þurfum við líklega rafeldsneyti til að fara í þyngri bílana og sérstaklega skipin og líka flugvélar-.

Rafeldsneyti.  Ísland notar 1.532.000 tonn af jarðefnaeldsneyti á ári (2018, kaup íslenskra flugfélaga erlendis meðtalin). Orkan sem þetta eldsneyti skilar er um 20 TWt svipað og allt íslenska raforkukerfið gefur af sér árlega. Með „rafeldsneyti“ er átt við vetni frá rafgreiningu og efni úr því. Fljótandi vetni gefur af sér á líter um 20% af orku díselolíu, amóníak um 30%, tréspíri um 40% og hydrasín um 50%. Þessi „rafeldsneyti“ þurfa miklu meiri orku í framleiðslu en þau skila við notkun. Aðeins tréspírinn kemur til greina í almenna notkun þó hann sé lélegt eldsneyti. Hann er venjulega búinn til úr jarðgasi eða kolum. „Raf-tréspíri“ úr rafgreiningarvetni og reyk (koltvísýringi) þarf tvöfalt meiri raforku í vetnið en spírinn skilar við notkun.

Þyrfti 200% meiri orku til að „ljúka orkuskiptunum“. Ef framleitt væri fljótandi raf-vetni, sem skilaði sama orkumagni og allt jarðefnaeldsneyti sem Ísland notar, þyrfti hvorki meira né minna en 40 TWt á ári af raforku í framleiðsluna. Vetnið skilar aðeins um helming af orkunni sem þarf til að framleiða það og hin „rafeldsneytin“ enn minna. Þessir 40 TWt er meir en tvöföld sú orka sem virkjanir Íslands gefa nú. Það þyrfti því að virkja um 6000 MW í viðbót við þau 3000 MW sem búið er að virkja!

Rafgreiningarvetni. Vetni er hættulegt í meðförum, lekur út um veggi og veldur sprengihættu, kali og köfnun. Fljótandi vetni er -250° kalt, flutningar og geymsla þarfnast flókins búnaðar og eru dýr. Önnur „rafeldsneyti“ eru mengandi, eitruð og hættuleg í meðförum. Ammóníak myndar eitrað rauðgas. Séu efnin notuð til að framleiða vetni á notkunarstað verður nýtingin léleg. Það er hægt að framleiða gott eldsneyti úr vetni og kolefnissamböndum en þau eru bannfærð eins og er nema koltvísýringur sem er versta hráefnið og á lægsta orkustigi.

Bílar. Nýtækni-rafhlöður hafa um 2% (1/50) af orkuinnihaldi bensíns á kg. Drægni rafbíla helmingast í frosti (-10°), þeir eru þyngri en bensínbílar og þurfa því meiri orku. En nýting rafmagnsins er betri meðan heitt er í veðri. Miðstöðin eyðir orkunni fljótt. Reynslan af einka-rafbílum bendir til að þegar ríkið hættir að niðurgreiða þá og kostnaður af rekstri og mengun þeirra leggst á eigendurna muni útbreiðslan takmarkast við þéttbýli. Í landflutningabíla og rútur eru rafhlöður of orkurýrar. Öll ökutæki gætu notað tréspíra þó að hann sé orkurýr og dýr. Rafgreiningarvetni (gas eða vökvi) hefur reynst of hættulegt og of dýrt í innkaupum og meðförum til að nota á landfarartæki.

Fiskiskip. Rafhlaða, með svipað orkumagn og fiskiskip fara með í veiðiferð, yrði 2000-4000 tonn að þyngd sem skipin bera ekki. Fyrir vetni þyrftu fiskiskipin að hafa um borð mörghudruð rúmmertra hættulega kryotanka sem tækju með búnaði mikið lestarrými. Svipaða sögu er að segja af ammóníaki sem þarf dýra brennslutækni. Tréspírinn er nothæfur á skipin en krefst stórs tankarýmis. Kostnaður raf-tréspíra (úr raf-vetni og koltvísýring) verður í öllum tilvikum óviðráðanlegur fyrir hvaða fiskiskip sem er (ríkisstyrkir og „losunarkredit“ geta breytt verðmyndinni um sinn)

Innanfjarðaferjur. Þær gætu notað bæði rafhlöður, fljótandi vetni og tréspíra, vandinn er óöryggi og hár kostnaður. Ferjur við Ísland skipta litlu máli í heildarmyndinni.

Millilandaskip. Þau gætu notað fljótandi raf-vetni. Mörg hundruð rúmmetra kryotanka þarf til og flutningskostnaður vöru mundi stórhækka. Þegar skipaolía verður orðin mjög dýr geta kjarnorkuofnar tekið við í stóru skipunum.

Flugvélar. Boeing 767-300 fullhlaðin 260 farþegum og 70 tonnum af eldsneyti vegur 187 tonn. Rafhlöður af bestu gerð með orku þessa eldsneytis vega 3500 tonn. Flugvélar gætu notað fljótandi vetni en þyrftu þyngri og 5-falt stærri eldsneytistanka, yrðu stórar og tækju fáa farþega. Hættuleg, dýr og flókin smíð, það tæki langan tíma að þróa þær til farþegaflutninga. Í raun eru vetniskolefnin eina eldsneytið sem kemur til greina að nota í flugi vegna gæða, orkuinnihalds og öryggis. Ef jarðolían verður of dýr verður þotueldsneyti (HC11-16) og bensín framleitt úr kolum, jarðgasi eða tréspíra.

Flugvélar og fiskiskip er því strax hægt að útiloka úr „orkuskiptunum“, þá minnkar raforkuþörfin í „rafeldsneytið“ úr 40 TWt í 15 TWt á ári, rúmlega 2000 MW viðbót í virkjunum.

Loftslagsmál ESB. Ísland dróst í „loftslagsmál“ ESB vegna EES þó að forsendur hér væru allt aðrar, ekki var gerð gild áætlun um afleiðingar. Íslensk stjórnvöld hafa jafnvel verið að segjast ganga lengra en aðrir í „orkuskiptum“ þó Ísland sé þegar heimsmethafi. Meira að segja ESB virðist nú hafa áttað sig á að jarðefnaeldsneyti verður ekki útrýmt, þar stendur nú til að auka notkunina. Þátttaka Íslands í „loftslagsmálum“ ESB krefst ómældra fjárútláta og óframkvæmanlegra orkuskipta og þarf því að segja upp.

Greinin er eftir Friðrik Daníelsson, birtist fyrst í Morgunblaðinu 1.2.2022

This entry was posted in EES, Orka, Uppbygging. Bookmark the permalink.