ESB lög æðri íslenskum lögum

Það verður æ augljósara að tilgangur EES-samningsins var að koma lögum ESB yfir EFTA löndin, aðeins Svisslendingar áttuðu sig og höfnuðu EES. Stjórnvöldum Íslands hafa borist mörg álit frá ESA um að landið virði ekki EES-samninginn. Af fjölda mála og flækjustigi er orðið vel ljóst að íslenskt þjóðfélag er of lítið til að ráða við hið flókna stjórnkerfi ESB.

ATH: ESA er skrifstofa í Brussel sem fylgist með að Ísland, Noregur og Liechtenstein hlýði EES-samningnum, lögum, reglum og tilskipunum ESB sem sambandið segir að eigi að gilda fyrir EES.

Ávirðingarnar frá ESA eru m.a. um að ESB lög fái ekki forgang eða að Ísland hlýði ekki tilskipunum ESB. Lög og regluverk ESB, sem sambandið fyrirskipar að sé gilt fyrir EES, segir ESA að eigi að vera æðra landslögum og vísar í bókun 35 við EES samninginn og 3. grein samningsins. Bókun 35 við EES-samninginn um forgang er þannig orðuð á vef stjórnarráðsins: Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum“.

ESA kom af stað aðför að Íslandi vegna Icesave eins og menn muna. ESA hefur skipt sér af ýmsum þáttum í landsstjórninni sem hægt er að tengja við EES-samninginn og tilskipanir frá ESB. Dæmi er bann við að ríkið veiti orkufyrirtækjum ríkisins ríkisábyrgðir til framkvæmda.

Nýjasta ávirðingabréf ESA

Rökstutt álit ESA” dags. 30.9.2020 rekur í 79 liðum hvernig Ísland hefur látið undir höfuð leggjast að láta innleidd EES-lög verða æðri íslenskum lögum – og þar með vanrækt að uppfylla sínar skyldur samkvæmt EES-samningnum. Ríkisstjórnin hefur þegar (10.9.2020) svarað samskonar umkvörtunum frá ESA frá 2017 og haldið fram að ekki sé tímabært að huga að breytingum á lögum til samræmis við framkomnar athugasemdir ESA á meðan óvissa ríkir í þessum málum almennt á EES-svæðinu og vísar í dóm stjórnlagadómstóls Þýskalands sem fylgir ekki dómi dómstóls ESB.  https://www.althingi.is/altext/150/s/2146.html

Aðgangur ESB að orkuauðlindum

ESA sendi  “rökstutt álit” um að Ísland virti ekki ákvæði EES um jafnræði íslenskra og ESB fjárfesta við útboð og endurnýjun virkjanaréttinda. Ríkisstjórnin dró til baka frumvarp um að breyta lögunum til að þóknast áliti ESA með þeim orðum að komið hafi upp rökstuddar efasemmdir um að þjónustutilskipunin (nr. 123/2006 sem ESA vísaði m.a. til), eigi við um raforkuframleiðslu: -“Íslensk stjórnvöld hafa því ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri visssa er fengin fyrir því hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenska ríkinu að þessu leyti-“

Afskipti ESA af íslenskum málum sýna að EES-samningurinn afsalar löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi til ESB. Það er því engum blöðum að fletta um að EES-samningurinn er andstæður lýðræðinu og brot á stjórnarskrá og landslögum. Mótbárur okkar stjórnvalda gegn þeim fáu valdboðum sem þau hafa tafið eða andmælt er upphafið að afnámi EES-samningsins og endurheimt lýðræðislegra stjórnarhátta.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.