“Grænt” vetni

Falsanirnar um loftslagsbreytingar af mannavölldum eru farnar að hafa alvarleg áhrif, sérstaklega í ESB sem hefur gert þær að skyldusannindum og ástæðu fyrir að hefta nýtingu eldsneytis. Afleiðingarnar eru stöðnun, atvinnuleysi og fátækt. Hagkvæmum orkuverum er lokað, orkuverð er orðið það hæsta sem um getur. Umhverfisspjöll, heilsuspilling og dýrameiðingar eru vaxandi af völdum vindmylla. Sólarpanelar þekja stór landbúnaðar- og útivistarsvæði. Skógareyðing og trébrennsla er vaxandi. Ræktun jurta til alkóhól- og olíuframleiðslu tekur mikið land og gefur dýrt og lélegt eldsneyti. Notkun raforku er komin út í svið þar sem rafmgan hentar ekki. Hugmyndir um “grænt vetni” eru dæmigerðar um óraunsæi og vanþekkingu um umhverfisvernd.

Vetni sem eldsneyti. Ein af óraunsæustu hugmyndunum um „grænt“ eldsneyti er að nota rafgreiningarvetni í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Hugmyndin er gömul og á rætur í að nóg er til af vetni í vatni og að vetnið er orkuríkt reiknað á þyngdareininngu. En vandinn er að vetnið í vatninu er bundið á lægsta orkustigi. Það þarf mun meiri orku til að losa það úr vatninu en fæst við brennslu þess. Lengi var s.k. spaltgas haft til heimilisnota í Evrópulöndum og víðar, það er framleitt úr jarðefnaeldsneyti og vatni og inniheldur vetni og fleiri gastegundir. Vetni til iðnaðar er framleitt úr jarðgasi eða jarðolíuafurðum ef á að gera það á hagkvæman hátt. Vetni er mun orkuminna á rúmmálseiningu en jarðgas (3,3/10,1 Wh/L). Núorðið er jarðgasið notað mikið sem eldsneyti til heimilisnota og iðnaðar. Hreint vetni er ekki almennt notað sem eldsneyti en í litlu magni til iðnaðar í ákveðnar vörur.

Grænt vetni“. Það þarf um 50kWh af raforku á kg til að greina vetnið frá vatninu og framleiða lofttegundina vetni. Súrefninu sem myndast, 8 kg á hvert kg vetnirs, er hent. Eigi að flytja vetnið til útlanda þarf að setja það á tanka. Þá þarf að þétta það og gera það að vökva, kæla það niður í -253 °C nálægt alkuli (-273) sem þarf um 15 kWh/kg til viðbótar. Vetnið skilar aðeins 39 kWh/kg, um 60%, þegar það er notað sem eldsneyti. Sé reiknað með nýjum hugmyndum um raforkuverð, um 6 kr/kWh, mun raforkukostnaður einn og sér til að framleiða fljótandi vetni verða um um 390 000 krónur á tonn vetnis. Verð framleiðenda á jarðgasi, sem er helsta samkeppnisvaran, hefur verið 15-30.000 kr á tonn upp á síðkastið í Hollandi. Þó vetnið gefi 2,6-sinnum meiri orku (varma við bennslu) á tonnið (39/15 MWt) verður rafmagnskostnaðurinn í vetnisframleiðslunni einn og sér 5 til 10 falt-verðið á hitaeiningu í jarðgasinu, samkeppnisvörunni!

Óhentugt eldsneyti. Jarðgas og olíugas er víða leitt í rörum til notenda og mætti líka gera með vetni (sbr. spaltgasið sem inniheldur vetni). Vetni sem notað er á farartæki krefst allt annars kerfis með mun hærri þrýsting og öðrum dreifiaðferðum. Flutningur, geymsla og dreifing vetnis á farartæki eru dýr og ekki almennt fyrir hendi. Vetni á bíla krefst tanka sem þola ofurþrýsting (um 700 loftþyngdir) og eru þungir, upp undir 100 kg fyrir hver 5 kg af vetni sem þeir rýma með orkuinnihlad eins og 20 lítrar af bensíni. Efnarafalarnir í bílunum nýta rúmlega helming orkunnar í vetninu og endast stutt. Þess vegna er tískubylgjan um vetnisbílana í rénun. Þegar reynsla safnast um hvað „grænt vetni“ er óhentugt og dýrt sem almennt eldsneyti mun vetnistískubylgjan hjaðna í heild sinni. Það er því ekki fýsilegt að stefna á rafgreingarvetnisframleiðslu á Íslandi til eldsneytisnota. Betra verð og meiri atvinnu er að fá úr annars konar notkun og framleiðslu.

https://www.japantimes.co.jp/opinion/2015/01/27/commentary/japan-commentary/japans-hydrogen-energy-hype/

https://www.treehugger.com/why-hydrogen-powered-cars-really-suck-4852110

This entry was posted in EES, Orka, Umhverfismál. Bookmark the permalink.