Bílaiðnaður á villigötum

Um miðja 20. öldina verða bílar almenn eign Vesturlandabúa. Lífsgæði snarbötnuðu, bíllinn flutti menn frá heimadyrum á áfangastað án tafa. Hækkandi verð á eldsneyti jók viðleitni við að gera létta og sparneytna bíla. En á 21. öld hefst ný tíska, s.k. orkuskipti, herferð gegn venjulegum bílum með niðurgreiðslum opinberra sjóða á rafhlöðubílum og raforku til þeirra. Þar með fer viðleitnin að létta bínana út um þúfur. Rafbílar eru miklu þyngri en eldsneytisbílar, þeir ganga á auðlindir Jarðar og valda umhverfisspjöllum.

Ferdinand Porsche hannaði Volkswagen bjölluna um miðjan 4. áratuginn. Til að fá léttan bíl lét hann steypa vélarblokkina úr léttmálmi, magnesíum. Árangurinn varð vinsælasta bílhönnun allra tima, Voffinn seldist í yfir 21 milljón eintökum lítið breyttur fram til 2003. Voffarnir urðu algengir á Íslandi eftir stríð. Um og uppúr 1960 var orðið nokkuð úrval af litlum léttum bílum. Nú, 6 áratugum síðar, eru rafbílar af svipaðri stærð orðnir tvöfalt þyngri en fyrirrennararnir voru um 1960.

Olíukreppan haustið 1973, olíusölubann Arabaríkjanna, og aftur 1979, ollu því að stjórnvöld hófu að setja kröfur á bílaframleiðendur um að minnka eldsneytisnotkun, sbr. CAFE-staðlana í Bandaríkjunum. Eldsneytisverðið ýtti undir eldsneytissparandi vélar og mengun í borgum varð til þess að vélarnar voru þróaðar til að gefa minni reykmengun.

Létt smíðaefni, sérstaklega plast, eru notuð í vaxandi mæli í bíla. Notkun léttmálmanna ál, magnesíum og títan hefur aukist minna en spáð var í olíukreppunum. Plastið er lítið endurnýtt. Málmarnir hafa aftur á móti þann kost að þeir eru að fullu endurnýttir og upprunaleg gæði þeirra nást. Áframhaldandi þróun í notkun léttmálmanna og þróaðra stáltegunda er mikilvægasta umhverfisverndaraðgerð bílaiðnaðarins.

Rafhlöðurnar valda þyngdaraukningunni. Þær geyma aðeins lítinn hluta, um 1-2%, af því orkumagni sem bensín og díselolía af sömu þyngd geyma, rafbílarnir komast styttra en brennslisbílar, sérstaklega í íslenskum vetrarveðrum. Tesla S er með rafhlöðu sem er álíka þung og lítill fólksbíll árgerð 1959, 625 kg, orkumagnið (100 kWh) í henni  er svipað og í 10 lítra bensínbrúsa. Tesla S er um 2 tonn eins og fullstærðar jeppi. Algengir meðalstórir 5 manna bensínbílar eru um 1 – 1,3 tonn. Ef samskonar skattar væru á rafmagni til rafbíla og á bensíni væri orkukostnaður venjulegra bíla og rafbíla svipaður.

   Tafla: Þyngd bíla 1959 og 2019.

Bensínbílar 1959 Rafbílar 2019
Austin Mini 580 kg e-Mini 1.365 kg
Fiat 500 483 kg e-500 1.353 kg
VW Bjalla 726 kg e-Golf 1.615 kg
Toyota Corolla 1.310 kg
Mitsubishi Mirage    986 kg
Tesla S 2.217 kg

Ath.: Golf er stærri en gamla Bjallan var

Rafbílar þurfa mikið af smíðaefnum sem ekki þarf í venjulega bíla. Sum þeirra eru dýr og valda umfangsmiklu raski á umhverfi þegar þau eru numin úr jörðu. Rafhlöðum er fargað án þess að endurvinna þær sem er vaxandi mengunarhætta af. Endurnýting rafhlaðanna er torveld og verður dýr ef tekst að þróa hana. Rafbílarnir geta bætt loftgæði inni í stórbogum, þó þeir valdi varasamri rykmengun draga þeir úr ólofti frá bílaútblæstri sem myndast frá mikilli umferð inni í miðsvæðum stórborga og geta því komið að góðu gagni þar.

Stjórnvöld margra landa eru að beina bílaiðnaðinum inn á hættulegar brautir almennrar rafbílavæðingar með niðurgreiðslum og skattaafsláttum. Kostnaður skattgreiðenda stefnir í að verða óásættanlegur. Afleiðingarnar fyrir umhverfið eru slæmar, mikil landspjöll og úrgangur myndast við smíði rafbíla. Ryk frá dekkjum og vegum kemur undan þungum rafbílunum og mengunarvandann af förgun rafhlaðanna sér ekki fyrir endann á. Markmiðið með rafbílavæðingunni var að hafa hemil á „hlýnuninni“. En venjulegir bílar, þrátt fyrir að vera orðnir yfir þúsund milljónir á heimsvísu, hafa hverfandi áhrif á loftslag og í dreifbýlum löndum er reykmengunin frá þeim takmörkuð og fer minkandi vegna þróunar bensín- og díselvélanna.

https://www.frjalstland.is/2019/10/29/rafbilavaedingin-vanhugsud/#more-1639

This entry was posted in EES, Orka, Umhverfismál. Bookmark the permalink.