Í framhaldi af EES-samningnum var aldargamalt grunnfyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar, Síminn, klofið í sundur og einkavætt. Síminn hélt símaþjónustunni, Míla hf var stofnuð 2007 um fjarskiptakerfin. Síminn hefur síðan lent í hremmingum, þarf m.a. að borga stjarnfræðilegar upphæðir fyrir að hafa ekki fylgt samkeppnislögum EES/ESB (upprunalega lög nr. 8/1993, þau brutu stjórnarskrá Íslands). Míla hefur byggt upp fjarskiptainnviði Íslands og fengið fjármagn hjá íslensku þjóðinni. En Míla er dótturfyrirtæki Landsíma Íslands hf (a.m.k. að þeirra sögn!) og verður nú seld „hrægammasjóðum“ í EES/ESB. Íslensk stjórnvöld treysta sér ekki til að gera neitt, ESB/EES-lögin stjórna Íslandi.
„Uppbygging ljósleiðarakerfisins um allt land var þarft verkefni, fjármagnað af ríkinu. Til þeirrar fjármögnunar var málaflokkurinn settur undir þann lið á fjárlögum er fer með samgöngur, að mestu fjármagnaður af vegafé. Því er ljóst að þessi þarfa uppbygging svelti á meðan viðhald vegakerfisins. Nú nýtur franskur fjárfestingasjóður, voru eitt sinn kallaðir hrægammasjóðir, góðs af lélegu vegakerfi á landsbyggðinni. Landsmenn sitja eftir með sárt enni, meðan Síminn telur sína milljarða. Hvernig á því stóð að Síminn eignaðist Mílu veit ég ekki. Síminn var seldur á sínum tíma vegna krafna ees samningsins um aðskilnað sölu og dreifingu símakerfisins. Að Síminn, sölukerfið, skuli komist yfir Mílu, dreifikerfið, hlýtur því að vera brot á ees samningnum“. (Gunnar Heiðarsson Mbl. blog 23.10.2021)
Svör stjórnmálaflokkanna við spurningum Frjáls lands fyrir kosningar afhjúpaði gjá vanþekkingar um EES, t.d.: „Land og þjóð nýtur góðs af þeim fjölmörgu réttindum og viðskiptatækifærum sem með samningnum hlýst“-. Nú hefur fengist reynsla af viðskiptatækifærum EES. Bankarnir, sem líka lentu í braskvæðingu í stjórnmálatískunni í lok śiðustu aldar, fengu réttindi til að starfa í EES/ESB. Þar unnu þeir samkvæmt reguverki ESB/EES og þar voru þeir settir í þrot. Og komu síðar aftur í fang fyrri eigenda, íslensku þjóðarinnar. Landsvirkjun var klofin og Landsnet stofnað í samræmi við EES en ekki hefur enn tekist að koma Landsvirkjun eða Landsneti í hendur hrægamma en hættan vex með hverjum “orkupakkanum“. Franskur „hrægammasjóður“ fær nú helstu fjarskiptainnviði landsins til eignar.
EES-aðild Íslands stefnir helstu eignum íslensku þjóðarinnar í hendur „fjárfesta“ í EES/ESB. ESB heimtar að virkjanaréttindi verði boðin út reglulega á EES sem þýðir að orkuauðlindir komast með tímanum í hendur fjárfesta í EES/ESB. Landareignir með orkulindum, réttindum og skyldum, eru þegar farnar að hverfa í eigu EES/ESB-aðila, allt sem okkar máttlausu stjórnmálamenn gera er að setja gagnslaus sýndarlög (nr 85/2020). Fyrirtækjarekstri á Íslandi er gert sífellt erfiðara fyrir vegna regluverks og kvaða EES/ESB, nú síðast óframkvæmanlegra kvaða gegn eldsneyti (lög 95/2021) sem sagðar eru vegna „loftslagsmála“ en eru í raun loftslagi óviðkomandi.
Einkafyrirtæki sem starfa á Íslandi og eru í samkeppnisumhverfi skipta oft um eigendur, það er eðli atvinnustarfsemi einkaaðila í frjálsu landi. En Míla er eðli sínu samkvæmt fáokunar- og einokunaraðili og á með réttu að vera innviðastofnun í eigu þjóðarinnar.