Tölfræðin í skýrslum IPCC

Íslenskir vísindamenn hafa ekki tjáð sig mikið í fjölmiðlum um kenningar um loftslagsbreytingar. Helgi Tómasson prófessor er undantekning en hann fjallar um síðustu skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) í Morgunblaðsgrein 14.10.2021. Hann bendir á veigamikla ágalla í skýrslunni og vísar í fleiri vísindamenn máli sínu til stuðnings og tekur upp tölfræðilegar hliðar málsins.

Hér á eftir eru nokkur atriði úr grein Helga:

-“Jon Dagsvik – í grein sem birtist í einu virðulegasta tölfræðitímariti heims, Journal of Royal Statistical Society, 2020 – er ályktað um hversu tregbreytanlegt ferli þróun hitastigs er – Greinin sýnir stærðfræðilegar útleiðslur og síðan dæmi um notkun á gögnum, hitamælingum 96 veðurstöðva í um það bil 200 ár, ásamt áætluðum hitatölum byggðum á árhringjum úr trjám í um það bil 2.000 ár. Niðurstaðan er að þróun hitastigs er vel lýst sem tregbreytilegu (long-memory) ferli með fast meðaltal. Þ.e. engin þróun í tíma. Sér í lagi engin þróun á seinni hluta 20. aldar-“

-“J. Scott Armstrong er stofnandi tveggja fræðirita um spálíkanagerð, Journal of Forecasting og International Journal of Forecasting. Hann hefur tekið saman vinnureglur um hvernig skuli vinna með spár og telur að IPCC brjóti margar-“.

-“Danski jarðfræðingurinn Jens Morten Hansen, sem m.a. hefur rannsakað Grænlandsjökul og gegnt mikilvægum embættum í dönsku rannsóknarumhverfi, varar við oftúlkunum á skýrslum IPCC. Hansen hefur efasemdir um aðferðafræði IPCC og reynsla hans af rannsóknum á Grænlandsjökli ásamt tilfinningu fyrir stærðargráðum segir að jafnvel bókstafleg túlkun á sviðsmyndum IPCC sýni að hvorki muni Grænlandsjökull hverfa né muni Danmörk sökkva. Hann vitnar þar til síðustu ísalda og hlýindaskeiða milli þeirra. Hansen gagnrýnir einnig danska ríkisútvarpið, DR (Danmarks Radio), fyrir einhliða málflutning og ýkjur um það hversu sammála vísindamenn séu-“

-“Bæði Hansen og Armstrong nefna Al Gore sem víti til að varast. Gore hafi verið með fráleita spádóma á sínum tíma sem alls ekki hafi gengið eftir. Hansen segir í Kristeligt Dagblad að Gore hafi verið heppinn að fá Nóbelsverðlaunin fyrir fram (hugsanlega einnig skattborgararnir sem sluppu við skattadillur hans). Gore og IPCC fengu friðarverðlaun Nóbels 2007-“

-“Ályktanir tímaraðamanna eins og Dagsvik og Mills um að þróun yfirborðshita jarðar sé tregbreytileg með fast meðaltal eru afgerandi. A.m.k. eru breytingar mjög hægar (miðað við okkar líftíma) og verðskulda alls ekki gildishlaðnar upphrópanir eins og hamfarahlýnun eða loftslagsvá-“

Úr greininni „Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC“ í Morgunblaðinu 14.10.2021 eftir Helga Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1792155/?item_num=2&searchid=ffe065887a45171a7eb355fe6854a1eaff89af24&t=610418309&_t=1634473556.189752

This entry was posted in EES, Loftslag, Umhverfismál, Utanríkismál. Bookmark the permalink.