Viðjar erlends valds í plágunni

Covid-19 faraldurinn hefur afhjúpað í hvaða viðjar stjórn landsins er komin. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að sporna við afleiðingum faraldursins hafa að mestu verið mikil fjárútlát almannafjár. Aðgerðir sem ekki eru á kostnað almennings en geta haft afgerandi þýðingu hafa lítið komist á dagskrá, þær krefjast þess að stjórnvöld landsins stjórni landinu samkvæmt aðstæðum en ekki samkvæmt kvöðum frá ESB

Fyrirtækjabjörgun. Það er varasamt að nota almannafé til að bjarga einkafyrirtækjum sem lenda í vanda. Fyrirtæki byggja á áhættufjárfestingu hluthafa. Ef það kerfi á að virka verða fjárfestarnir að taka ábyrgð á sínum gerðum og taka afleiðingunum af gengi fyrirtækjanna hverju sinni. Fyrirtæki sem ekki hafa nóg til að verjast áföllum fara í þrot fyrr eða síðar. Stjórnvöld okkar hafa einblínt á ferðageiran síðustu áratugi. Viðjar EES-regluverksins hafa leitt til að uppbygging í öruggari atvinnugeirum, s.s. framleiðslu iðnaðar, ræktunar og landbúnaðar hefur verið vanrækt en má koma af stað með litlum fyrirvara með afnámi ESB-kvaða.

Innviðauppbygging. Löngu tímabærar fjárfestingar almannafyrirtækja í samgöngum og orkukflutningi eru nú loksins komin á dagskrá, þær hafa verið í gíslingu regluverks ESB í áratugi. Umhverfisverndaröfgarnir víkja þegar alvara lífsins blasir við. Vandamálið er að regluverkið og stofnanaumgjörðin um framkvæmdir gerir undirbúninginn svo tímafrekan og dýran að skyndiupphlaup skila sér ekki fyrr en of seint. Umhverfismat samkvæmt ESB/EES er orðið flækja sem tekur langan tíma að leysa úr. https://www.frjalstland.is/2018/04/11/flokid-og-kostnadarsamt-umverfismat-haegir-a-throun-byggdar/

Fjárfestingar fyrirtækja er fljótvirkt að auka. Sama gildir um þær og innviðafjárfestingarnar: Þær sitja fastar árum saman í viðjum EES-regluverksins og sparðatínings stofnana og umhverfisfélaga. Regluverk ESB um umhverfisvernd og „loftslagsmál“ eru fyrirtækjunum allt of dýrar. Flugfélög og iðnaður þurfa að eyða fúlgum í losunarleyfi fyrir koltvísýring og verið er að leggja drög að enn meiri álögum sem hafa engin áhrif á loftslag. https://www.frjalstland.is/2019/12/09/island-flaekt-i-loftslagsblekkingar-esb/ . Mikill tími og kostnaður fer í óþarfa skriffinnsku í kringum starfsleyfi. https://www.frjalstland.is/2018/04/17/hamlandi-starfsleyfisreglur/. Til þess að örva fjárfestingar félaga, bæði einka og almanna, þarf að afnema lög og reglugerðir ESB/EES um umhverfismat, starfsleyfi og eldsneytisnotkun og setja skilvirkari íslenskan regluramma.

Efla atvinnureksturinn. Einn versti hemillinn á nýsköpun og þróun í íslensku atvinnulífi er regluverkið um atvinnustarfsemi, að mestu komið frá ESB með EES-tilskipunum. Fljótvirk leið til að örva uppbyggingu bæði nýrra og starfandi fyrirtækja er að einfalda regluverkið og afnema mikið af EES-reglugerðunum. Skattkerfið er líka orðið of þungt fyrir fyrirtækin í takt við meiri þörf hins opinbera fyrir fé til að halda uppi ESB-regluverkinu. Lækkun skattbyrði og einföldun skattkerfis fyrirtækja yrði strax atvinnuskapandi. https://www.frjalstland.is/2018/09/07/regluverk-ees-gerir-islensk-fyrirtaeki-osamkeppnishaef/

Ferðabann á Schengen. Ein furðulegustu afskipti ESB af íslenskum málefnum í covid-19 plágunni er lokun Schengensvæðisins svo kallaða sem Íslendingar álpuðust til að verða aðilar að. Bann á ferðir til og frá Íslandi var sett í andstöðu við okkar heilbrigðisfólk sem veit hvað okkar kerfi ræður við. Bannið er byggt á forsendum ESB en ekki á íslenskum forsendum og hefur valdið skaða hér.

Stjórnmálamenn okkar eru fastir í viðjum stjórnkerfis ESB sem kemur í veg fyrir að stjórnvöld landsins geti stjórnað landinu eins og þarf. Þau þykjast í staðinn geta bjargað málunum með fjáraustri úr almannasjóðum. Fljótvirkari og árangursríkari stjórnvaldsaðgerðir komast ekki á dagskrá, stjórnmálamenn okkar treysta sér ekki til að stjórna landinu sjálfir heldur hjakka í fari framandi regluverks sem EES hefur leitt yfir landið.

This entry was posted in EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.