Ný sjálfstæðisbarátta

-Eftir liðlega aldarfjórðungslanga aðild að EES-samningnum standa Íslendingar frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir mega, í ljósi þess hvernig höndlað hefur verið með samninginn, í raun heita áhrifalausir um efni þeirra lagareglna sem sendar eru hingað í pósti og innleiddar í stórum stíl í íslenskan rétt-“

(Úr formála greinar í Þjóðmálum, Sjálfstæðisbaráttan nýja, eftir Arnar Þór Jónsson, þar sem höfundur gerir lögfræðilega og sagnfræðilega greiningu á EES-samningnum út frá þeim grunngildum sem Íslendingar vilja kenna sitt samfélag við: Lýðræði, fullveldi og sjálfstæði. Hér á eftir er stiklað á nokkrum atriðum í grein Arnars:)

Áhrifaleysi: -Grein þessi er rituð með skírskotun til þess áhrifaleysis sem framkvæmd EES-samningsins hefur opinberað í tilviki Íslands. Að mati höfundar eru álitamál sem tengjast stöðu íslenskrar löggjafar og innleiðingarferlinu í heild af þeirri stærðargráðu að engin þjóð sem vill teljast sjálfstæð getur látið þau liggja í þagnargildi. Með skírskotun til þeirra meginstoða um lýðræði, fullveldi og temprun valds sem stjórnskipun Íslands hvílir á er hér undirstrikað að innleiðingarferli erlendra reglna getur ekki og má ekki vera hömlulaust-“

Fullveldi: -Fullveldi er nú sem fyrr undirstaða stjórnmála og lagasetningar, því það ber með sér þann grundvallandi rétt sérhverrar þjóðar að eiga síðasta orðið um innihald laga og þar með þann grunn sem dómstólar og fram- kvæmdavald starfa á. Í þessu ljósi blasir við nauðsyn þess að valdhafar á Íslandi beri skynbragð á aðstæður hér á landi, hlusti á vilja kjósenda og síðast en alls ekki síst: Svari til ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum-“

Hverra lög eru þetta? -Samt sem áður eru Íslendingar komnir í þá stöðu að skæðadrífa nýrra laga­reglna dynur á okkur í hverri einustu viku, án þess að þjóðin hafi haft nokkuð um efni þeirra að segja. Ef þetta er niðurstaða rúmlega aldarfjórðungs „samstarfs“ á grunni EES-samningsins, þ.e. að lög Íslendinga eru nú að stórum hluta samin af fulltrúum annarra þjóða og gefin út í nafni yfirþjóðlegra stofnana, hlýtur að mega spyrja grundvallarspurningar: „Hverra lög eru þetta?“-“

Sérfræðingar í ESB-rétti -Þegar „sérfræðingur í Evrópurétti“ lýsti því yfir í fréttaviðtali sumarið 2019 að „útilokað“ væri fyrir Íslendinga að fá undanþágu frá þriðja orkupakka ESB“ hlýtur mörgum að hafa brugðið alvarlega- -Eiga Íslendingar ekkert svar við þeirri stöðu sem hér var lýst annað en að segja að það sé „ekki hægt að sækja um undanþágur“ með þeim einu rökum að það hafi aldrei gerst í „sögu EES-samningsins að EFTA-ríki hafi hafnað upptöku löggjafar í EES-samninginn“? -“

Staða Íslands sé tekin til skoðunar -Frammi fyrir þeirri stöðu sem hér birtist, sbr. m.a. áðurnefnda viðvörun ESA, er tímabært að staða Íslands innan EES sé tekin til gagnrýnni skoðunar en gert hefur verið hingað til. Við þá endurskoðun þarf að ræða stöðuna í víðu samhengi hagsmunagæslu, fullveldis og lýðræðis-“

——————————————————————————————————– Tímaritsgrein Arnars Þórs Jónssonar er fyrsta gagngera faglega greiningin á EES-samningnum, sem kryfur áhrif samningsins á sjálfstæði og fullveldi Íslands, sem kemur fyrir almannasjónir á prenti. Í september 2019 kom út skýrsla starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson lét yfirlýsta stuðningsmenn EES-samningsins skrifa, formaður starfshópsins var einn af þeim þingmönnum sem greiddu samningnum atkvæði þegar hann var samþykktur með 33/63 atkvæða á Alþingi 12. janúar 1993. Skýrsla starfshópsins var í raun skrípaleikur og tilraun til að hylma yfir afleiðingar samningsins. Þessi grein Arnars Þórs í Þjóðmálum sviptir nú hulunni af EES-samningnum með röksemdafærslum lögfræði og vísan í sögu Íslands.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.