Kolsvart fótspor rafbílsins

Fyrir orkuskiptin þarf að ryðja regnskóga, fletja út fjöll, hrekja samfélög á flótta og búa til gríðarlegt magn úrgangs – og mikið af honum er eitrað

Á næstu 30 árum fjölgar jarðarbúum um tvo milljarða. Það er tvöfaldur núverandi íbúafjöldi Norður-, Mið- og Suður-Ameríku samanlagt. Árið 2050 munu 66 prósent manna búa í borgum. Það samsvarar tólf nýjum borgum á ári á stærð við Dubai.

Á sama tíma er talin þörf á að kolefnislosa orku- og flutningskerfi plánetunnar. Til að ná því þarf heimurinn tugi og hundruð milljóna vindmylla, sólarrafhlaða og rafhlaða fyrir rafbíla.

Grein í Spiegel 30. október sl. „Mining the Planet to Death. – The Dirty Truth About Clean Technologies,“ kastar ljósi á hvað það hefur í för með sér. Þar segir að hreina tæknin muni valda gífurlegri eftirspurn eftir sjaldgæfum málmum sem þessi orkuskipti byggjast á með skelfilegu umfangi námuvinnslu.

Orkuskiptin“ eru rétt að byrja og til að setja þetta í samhengi er spáð að framleiðsla rafbíla aukist úr 5 milljónum bíla í dag í 245 milljónir árið 2030, eða 50-falt eftir einungis 10 ár og síðan í meira en 500 milljónir rafbíla 2040 auk alls annars.

Rafbíllinn

Rafbíll með 75KWh rafhlöðu þarf 56 kg af nikkeli, 12 kg af mangani, 7 kg af kóbalti og 85 kg af kopar fyrir raflagnir. Þetta þýðir að þörf er fyrir tugi milljóna tonna af sjaldgæfum málmum sem þegar er farið að grafa eftir í fátækari löndum með gífurlegum umhverfisspjöllum

Þetta þýðir í einfölduðu máli að kaupendur rafbíla sem telja sig vera að bæta stöðu jarðarinnar, sem stjórnmálamenn hafa talið almenningi trú um að þeir geri, munu þurfa að horfast í augu við að þeir gera ástand jarðarinnar enn verra. Ef aðeins er reiknað kolefnisspor nýs rafbíls úr kassanum með 75 kWst rafhlöðu jafngildir kolefnislosun hans vegna framleiðsluþátta hans kolefnislosun dísilbíls í akstri í sex ár með eldsneytisnotkun 5 lítra/100 km.

Samkvæmt útreikningum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA) losar rafbíll helming af CO2 losun dísil/bensín-bíls sem ekið er 200.000 þús. Km vegna kolefnisspors í hráefnisnotkun, orkunotkun og fullvinnslu í framleiðslu rafbílsins.

Nýr rafbíll þarf því að ná 6 ára aldri áður en hann verður CO2 frír, en kannski er þá komið að endurnýjun hans?

Hér eru ekki tekin með í reikninginn þau umhverfisspjöll sem verða vegna námavinnslu þessara sjaldgæfu málma sem framleiðsla hans þarfnast og það kapphlaup er hafið.

Hvað kosta orkuskiptin?

Evrópusambandið hefur heitið því að byggja upp fullkomna aðfangakeðju fyrir mikilvæg hráefni til að orkuskiptin takist. Meira en 200 fyrirtæki, stjórnvöld og rannsóknarstofnanir hafa verið sameinuð í bandalag, með það að markmiði að tryggja hráefni sem þarf til að mæta hreinni orkubreytingum ESB.

Þetta mun setja mikið álag á jarðefnaauðlindirnar sem grafa þarf úr jörðinni – einkum málma eins og nikkel, mangan, kóbalt og kopar.

Samkvæmt spám Alþjóðaorkumálastofnunarinnar, IEA, mun magn frá virkum og fyrirhuguðum námum og endurvinnslu málma, ekki nægja til að anna eftirspurninni. Til dæmis mun núverandi námarekstur aðeins standa undir helmingi framtíðareftirspurnar eftir litíum og kóbalti. „Framboðs- og fjárfestingaráætlanir fyrir mörg mikilvæg steinefni eru langt undir því sem þarf til að styðja við hraða uppsetningu á sólarrafhlöðum, vindmyllum og rafknúnum farartækjum,“ varar IEA við.

Til að ná þessum málmum fyrir orkuskiptin þarf að ryðja regnskóga, fletja út fjöll, hrekja samfélög á flótta og eftir verður gífurlegt magn úrgangs – og mikið af honum eitrað –, svo ríku þjóðfélögin sem menga mest geti farið í orkuskipti.

Þessi eftirspurn mun ganga á eða eyða öllum þessum málmum fyrir framtíðarkynslóðir, allt fyrir skammvinn orkuskipti, því eftirspurnin heldur áfram að óbreyttu, allt á kostnað fátæka suðurhelmings jarðarinnar með tilheyrandi eyðileggingu landsvæða af hendi stórra alþjóðafyrirtækja sem eiga námuréttindin og skilja lítil verðmæt eftir í hráefnislöndunum.

En til að mæta eftirspurninni eru stórfyrirtækin farin að undirbúa námugröft á hafsbotni. Einkum er horft á ríkt málmgrýti á hafsbotni í Kyrrahafi á 4.500 metra dýpi í Clarion Clipperton Zone (CCZ), hafsvæðinu á milli Havaí og Mexíkó og talið er að vinnsla hefjist innan nokkurra ára með stórvirkum sjálfvirkum vélum, vísindamenn hafa varað við mikilli óvissu um afleiðingar slíkrar vinnslu fyrir lífríki hafsins vegna úrfalls námuvinnslunnar. Mun maðurinn fórna hafinu líka fyrir neysluþægindi núverandi kynslóðar?

Hætt er við að það renni tvær grímur á stjórnmálamenn og fleiri sem telja að orkuskipti úr jarðeldsneytisbíl í rafbíl sé einföld lausn fyrir jörðina, þegar þeir átta sig á því að tilkoma rafbílsins veldur stórfelldu umhverfisslysi og ofnýtingu á auðlindum heimsins í þágu ríkari hluta heimsins. Nær væri að spyrja, er önnur betri leið til fyrir framtíð jarðarinnar?

Heimildir:

https://www.frjalstland.is/wp-content/uploads/2021/11/Skitugi-sannleikurinn-um-graena-taekni-3.pdf

Der Spiegel:

https://tinyurl.com/2p935eev

https://mineralsindepth.org

https://news.mongabay.com /

transportenvironment.org:

https://tinyurl.com/yckm87fm

sciencedirect.com:

https://tinyurl.com/fz73jc7u

Eftir Sigurbjörn Svavarsson. Höfundur er í stjórn Frjáls lands. s.svavarsson@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30.11.2021.

This entry was posted in EES, Loftslag, Orka, Umhverfismál. Bookmark the permalink.